16.6.2008 | 18:38
Komin heim og tölvan enn biluð
Jæja þá er ég komin á klakann aftur. Missti greinilega af allri spennunni, skjálftum og dauðum ísbirni. Ok, reyndar ákvað annar bangsi að kíkja í heimsókn þannig að ég fæ nú aðeins að fylgjast með.
Mexíkó var æði, og New York reyndar líka. Hrakfallabálkurinn ég afrekaði það þó að brjóta á mér tá á 3 degi og var þess vegna ekki alveg í dansstuði í ferðinni. En ég lét mig nú hafa það að skoða svona eins og einn pýramída og aðrar rústir, og auðvitað lét ég djammið ekki alveg vera þrátt fyrir táruglið. Taskan var ansi mikið þung á leiðinni heim, gat reddað mér í NY með því að fylla eina litla tösku af þungu hlutunum og taka skóna með í handfarangri. Flugfélagið sem við flugum með til Cancún var nefnilega með einhverja furðulega reglu um að aðeins mætti taka eina tösku með í flugið. Flestir fóru þó með tvær en ég var svo hlýðin að ég var bara með eina tösku með. Gat því ekki keypt bleika hengirúmið sem ég er sannfærð um að myndi sóma sér vel fyrir framan bústaðinn hennar mömmu (svona ef hann kemst einhvern tímann upp). Ég kom heim á föstudagsmorgun og er eiginlega ennþá þreytt eftir ferðalagið og líkamsklukkan er ekki alveg komin á íslenskan tíma. Þrátt fyrir að vera hundfúl út í hjúkrunarfræðideildina fyrir að hafa neitað okkur um undanþágu á sumarprófum þá var ég eiginlega pínu fegin að þurfa ekki að koma heim og halda útskriftarveislu daginn eftir svona langt ferðalag.
En já, ég er byrjuð að vinna. Fyrsta vaktin var í morgun. Mér finnst þetta hafa verið snilldarhugmynd hjá mér, þ.e. að ráða mig á vökudeildina. Mér finnst þessi deild æði, allt svo spennandi. Það var líka spennandi í fyrra á barnadeildinni en gaman að prófa eitthvað nýtt. Ég held að sumarið verði stórskemmtilegt. Svo er ég líka mjög sátt við vaktaplanið mitt, það kemur vel út.
Hmmm, ég ætlaði örugglega að segja eitthvað meira hérna en heilinn hefur slökkt á sér. Maturinn er alveg að verða til, mamma ætlar að gefa litla barninu sínu að borða. Er semsagt í hennar tölvu þar sem mín er í ruglinu. Hallur bróðir fór með hana í viðgerð á meðan ég var úti þar sem hún slökkti alltaf á sér upp úr þurru. Snillingarnir sem fengu hana í hendurnar ákváðu að það þyrfti að skipta um harðan disk. Sem betur fer náðu þeir skjölunum út áður en það var gert en auðvitað vantar mig öll forritin sem í henni voru. Svo kem ég heim og byrja að tengja hana við netið og það gengur rosalega vel, alveg þangað til hún slökkti á sér!!! Þannig að hún er aftur í viðgerð, pirr pirr pirr.
En ég er hætt að tuða og farin að fá mér að borða. Tjái mig hér einhvern tímann seinna:)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.